Frjálsar.is » Fréttir og pistlar

Ármann er fyrirmyndarfélag

Mikill heiður hlotnaðist Glímufélaginu Ármanni í dag. Félagið og allar starfandi deildir þess, hlutu gæðaviðurkenninguna, Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Það var Sigríður Jónsdóttir, formaður þróunar og fræðslusviðs ÍSÍ, sem afhenti deildum félagsins og aðalstjórn viðurkenningu þessu til staðfestingar.

Þetta gamla og rótgróna Reykjavíkurfélag er vel þekkt. Á vitorði færri er að rekstur og skipulag félagsins er og hefur verið undanfarin ár til fyrirmyndar. Félagið er stórt og fjölbreytt fjölgreinafélag, með flestar virkar íþróttir fjölgreinafélaga borgarinnar. Það er eitt af stærstu félögum lands og borgar ef miðað er við iðkendafjölda.

Vel fór á að félagið skyldi hljóta þessa viðurkenningu í dag, 15. desember, á 125 ára afmæli félagsins.

Sigríður Jónsdóttir afhendir Snorra Þorvaldssyni formanni Glímufélagsins Ármanns staðfestingu fyrir því að félagið sé eitt Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

Frjálsíþróttadeild Ármanns er Fyrirmyndardeild

Freyr Ólafsson formaður tók við viðurkenningu fyrir hönd frjálsíþróttadeildarinnar.

Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum

Föstudaginn 20.desember fer fram hið árlega Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum. Mótið var fyrst haldið árið 2009 og er trúlega eina stökkmótið sem haldið er í atrennulausum stökkum á höfuðborgarsvæðinu. Mótið heitir í höfuðið á Hafsteini Þorvaldssyni en hann er mikill félagsmálamaður og var til að mynda formaður Ungmennafélags Íslands í mörg ár. Atrennulausu stökkin, sem hafa þurft að víkja fyrir hefðbundum stökkgreinum síðustu ár, voru á árum áður stunduð af miklum móð. Þá voru íþróttir oftar en ekki æfðar í litlum félagsheimilum þar sem ekki var hægt að hlaupa atrennu eða stökkva í sandgryfju og því lá beinast við að stökkva langstökk, þrístökk og hástökk án atrennu. Greinarnar eru afskaplega skemmtilegar að því leyti að fólk getur komið úr öllum mögulegum íþróttagreinum og staðið sig mjög vel. Þar er það ekki endilega frjálsíþróttafólkið sem stendur best að vígi heldur hafa kraftlyftingamenn til dæmis staðið sig mjög vel. Íslandsmetið í langstökki án atrennu í karlaflokki er í eigu Flósa Jónssonar kraftlyftingamanns. Það mældist 3,45 m. Frjálsíþróttadeild Ármanns skorar á íþróttafólk úr öllum greinum að mæta á svæðið og reyna sig á móti mörgum af bestu frjalsíþróttamönnum og -konum landsins. Að sama skapi væri gaman að fá gamlar kempur til að mæta á svæðið og keppa í flokki 50 ára og eldri. Nánar um mótið: Keppt verður í 6 flokkum: -Flokki 16 ára og yngri sveinar -Flokki 16 ára og yngri meyjar -Karlaflokki -Kvennaflokki -Karlaflokki 50+ -Kvennaflokki 50+ Keppnisgreinar: -Langstökk án atrennu -Þrístökk án atrennu -Hástökk án atrennu Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki og fyrir flest heildarstig í karla og kvennaflokki. Allir velkomnir og hvattir til að mæta. Keppnisgjald er: -1000kr fyrir 16 ára og yngri -1500kr fyrir 17 ára og eldri Fylgist með fram að móti á facebook síðunni “Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum.Skráning: hafsteinsmot@hotmail.com – Takið fram fullt nafn og kennitölu Ábyrgðarmaður: Haraldur Einarsson Yfirdómari: Bjarni Már Ólafsson

Ásdís Hjálmsdóttir og Helgi Sveinsson tilnefnd sem Íþróttakona og Íþróttakarl Reykjavíkur

Það er gleðilegt að segja frá því að okkar glæsilegu afreksmenn, Ólympíufarinn Ásdís Hjálmsdóttir og heimsmeistarinn Helgi Sveinsson hafa fengið tilnefningar sem Íþróttakona og Íþróttakarl Reykjavíkur árið 2013. Þá má sjá einnig að ÍR ingurinn Aníta Hinriksdóttir er einnig tilnefnd. Því alls þrír frjálsíþróttamenn tilnefndir.

Tilkynnt verður hver hlýtur sæmdartitlana, Íþróttakarl og Íþróttakona ársins, í móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur 18. desember næstkomandi. Til þessa hefur aðeins verið valinn Íþróttamaður Reykjavíkur. Þá er nýlunda að tilkynnt verður um Íþróttalið Reykjavík árið 2013 við sama tilefni.

Þess má geta að Ásdís Hjálmsdóttir var valin Íþróttamaður Reykjavíkur 2009 og 2010. Þá var Helgi Sveinsson valinn Íþróttamaður ÍF á dögunum.

Listi í stafrófsröð yfir tilnefnda íþróttamenn má sjá að neðan.

Aníta Hinriksdóttir, ÍR
Anton Sveinn McKee, Sundfélaginu Ægi
Ásdís Hjálmsdóttir, Ármanni
Ásgeir Sigurgeirsson, Skotfélagi Reykjavíkur
Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sundfélaginu Ægi
Hannes Þór Halldórsson, KR
Helga María Vilhjálmsdóttir, ÍR
Helgi Sveinsson, Ármanni
Jón Margeir Sverrisson, Fjölni
Konráð Valur Sveinsson, Fáki
Stella Sigurðardóttir, Fram
Sunna Víðisdóttir, GR

Guðmundur Karl 200m

Guðmundur Karl setti nýtt Ármannsmet í 200m hlaupi 15 ára

Hinn 15 ára gamli Guðmundur Karl Úlfarsson náði góðum árangri á Aðventumóti Ármanns um helgina. Hann kastaði lengst sinna jafnaldra í kúluvarpi 12,04m (4kg kúla), stökk lengst í langstökki (5,64m), sem er persónulegt met og hljóp hraðast í 200m hlaup (25,07s).

Árangurinn í 200m hlaupinu er nálægt lágmarki fyrir 15 ára inn í Úrvalshóp FRÍ, það er 24,75s.

Tími Guðmundar Karls er nýtt Ármannsmet í 15 ára flokki. Fyrra met var tveggja ára gamalt í eigu Sölva Kolbeinssonar, 25,75s.

kúluvarp Guðmundur Karl Úlfarsson

Guðmundur Karl Úlfarsson kastar kúlu á Aðventumótinu.

Halli Einars með sína bestu byrjun á Aðventumóti Ármanns

Það er óhætt að setja að Haraldur Einarsson alþingismaður og Íslandsmeistari í 60m hlaupi nái fljúgandi starti á sínum keppnisvetri. Hans fyrsta 60m keppnishlaup á tímabilinu tók skamma stund, aðeins 7,13s. Fyrir sléttu ári á sama móti hljóp Halli 60 metrana á 7,35s. Það verður hægara sagt en gert fyrir keppinautana að halda í við alþingismanninn eftir áramótin.

Eins og sjá má á myndinni þá er hugur kempunnar kominn í Ármann. Halli tók forskot á sæluna og keppti í Ármannsbol, þó formleg félagaskipti geti ekki farið fram fyrr en um áramót.


60m Haraldur Einarsson

Halli Einars kemur fyrstu í mark í 60m hlaupi

Styrmir Dan tvíbætti Íslandsmet á Aðventumóti Ármanns

Vel heppnuðu Aðventumóti Ármanns lauk skömmu eftir hádegi í dag. Þátttaka var mjög góð en 186 keppendur voru skráðir til leiks. Margt frábært íþróttafólk tók þátt á mótinu, aðallega í yngri flokkum en þó var sæmileg þátttaka í fullorðinsflokkum.

Mörg met voru í hættu og þá sérstaklega aldursflokkamet. Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir bætti Íslandsmet í sínum fötlunarflokki (F20) í kúluvarpi kvenna með kasti upp á 9,20m en hún er í íþróttafélaginu Suðra á Suðurlandi.

Hinn bráðefnilegi Styrmir Dan Steinunnarson sýndi frábæra takta í hástökki þegar hann tvíbætti Íslandsmet í flokki 14 ára pilta innanhúss. Fyrst bætti hann metið, sem var 1,85m með því að stökkva 1,86m í þriðju tilraun sinni við hæðina. Þá var ráin hækkuð í 1,90m og gerði pilturinn sér lítið fyrir og stökk yfir þá hæð í fyrstu tilraun. Myndband af stökkunum má sjá hér að neðan. Ármann þakkar keppendum, starfsmönnum og gestum mótsins kærlega fyrir góðan dag.

Aðventumót Ármanns – mikil þátttaka

Það sem átti í upphafi að vera lítið aðventumót fyrir nokkra Ármannskrakka er orðið að spennandi viðburði með ágætri þátttöku. Alls eru 152 keppendur skráðir frá 12 félögum. Þar af eru margir af efnilegustu unglingum landsins sem án vafa reyna að bæta aldursflokkamet á mótinu. Vegna þessa mikla áhuga og skráningar höfum við þurft að breyta tímaseðli mótsins. Sjá að neðan uppfærðan tímaseðil, hér á pdf formi, hér á Google Drive. Aðventumót Ármanns 2013 - Tímaseðill

Taktar vikunnar hjá meistaraflokki

Meistaraflokkur heldur sínum fjölbreyttu æfingum áfram. Eins og gjarnan í góðu íþróttaliði eru meðlimirnir mikið keppnisfólk. Þau eru því dugleg að leita sér leiða til að keppa á æfingum og því verða oft til óhefðbundnar og skemmtilegar keppnisgreinar. Í nýjasta myndbandinu sem tekið var í vikunni sem leið má sjá nokkrar æfingar og nýstárlegar keppnisgreinar.

Endilega skoðið öll hin meistaraflokksmyndböndin.

Innanfélagsmót 7. des = Aðventumót Ármanns

Við Ármenningar stefnum á að halda innanfélagsmót 7. des næstkomandi, nefnt Aðventumót Ármanns. Mótið hefst í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal klukkan 10:00. Örvar Ólafsson hefur undirbúið metnaðarfullan tímaseðil sem má sjá á vefnum hér.

Hugsanlegt er að tímaseðillinn taki einhverjum breytingum ef skráning á mótið verður mikil.

Vitað er til þess að einhverjir góðir gestir ætla að fá að grípa tækifærið og vera með í mótinu, auk Ármenninga.

Mótið er kærkomin æfing fyrir Ármenninga í mótahaldi sem munu standa að framkvæmd Meistaramóts Íslands 15-22ja ára í upphafi janúar.


Fimleikaæfing helgarinnar

Meistaraflokkurinn æfir flesta laugardaga í fimleikasal Ármanns. Aðstaðan þar er frábær og býður upp á mikla fjölbreytni í æfingum. Laugardaginn 23.nóvember hvíldu flestir eftir öfluga testviku en Bjarni Malmquist Jónsson og Kristófer Þorgrímsson slógu ekki slöku við eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Endilega skoðið öll hin meistaraflokksmyndböndin.

armannfrjalsar á Instagram

This error message is only visible to WordPress admins

Error: No feed found.

Please go to the Instagram Feed settings page to create a feed.

Aðventumót Ármanns