Frjálsar.is » Fréttir og pistlar

Hlaupadagur í Laugardal

Frjálsíþróttadeild Ármanns stóð fyrir tveimur hlaupaviðburðum laugardaginn 10. maí s.l. Dagskráin hófst með Fjölskylduhlaupi Ármanns og garðyrkjubænda. Áður en hlaupið var ræst spreyttu krakkarnir sig í boðhlaupi með gúrku sem kefli! Hlaupin var góðlega kílómetra leið um nágrenni þvottalauganna í Laugardal. Töluverður fjöldi hlaupara á ýmsum aldri spreytti sig á brautinni og naut veðurblíðunnar í dalnum. Svipmyndir af hlaupinu og stemningunni má sjá hér.

 

Klukkan 11 var svo fyrsta hlaup í Víðavangshlaupi Íslands ræst. Keppt var í fjölmörgum flokkum beggja kynja. Af úrslitum Ármenninga má nefna að í flokki 12 ára og yngri pilta sigraði Ólíver Dór Örvarsson. Jafnframt sigruðu Ármanns piltar stigakeppni félaga auk Ólívers skipuðu þeir Björn Þór Gunnlaugsson, Páll Rúnar Sigurðsson og Flóki Týr Klöruson sveitina. Guðmundur Karl Úlfarsson varð í 3. sæti 16-17 ára pilta og Þór Daníel Hólm varð í öðru sæti í flokki 18-19 ára pilta. Ívar Trausti Jósafatsson sigraði í flokki 40 ára og eldri karla og Stefán Guðjónsson varð í 3. sæti í sama flokki. Þeir tveir ásamt Marvin Ívarssyni sigruðu sveitakeppni í flokknum. Í flokki 35 ára og eldri kvenna sigraði Gunnur Róbertsdóttir. Heildarúrslit úr hlaupinu má finna hér. Svipmyndir frá keppni í Víðavangshlaupi Íslands má sjá hér.

 

Frjálsíþróttadeild Ármanns vill nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum lögðu sitt af mörkum fyrir aðstoðina. Sölufélagi Garðyrkjumanna fyrir veittan stuðning við að gera viðburðinn jafn glæsilegan og raun bar vitni. SS fyrir pylsurnar og Myllunni fyrir pylsubrauðin. Jafnframt viljum við þakka öllum hlaupurum og öðrum gestum fyrir komuna.

Innanfélagsmót Ármanns

Innanfélagsmót Ármanns fer fram á morgun 9.maí kl 18:00 í Laugardalshöllinni. Keppt verður í 60m hlaupi karla, kúluvarpi karla og stangarstökki kvenna. Nú fer lokaundirbúningur að hefjast fyrir átökin í sumar en aðeins er rúm vika þar til fyrsta mót í mótaröð FRÍ hefjist. Stuðningsmenn Ármanns eru hvattir til að leggja leið sína í höllina og sjá hvernig Ármenningar koma undan vetri.

Víðavangshlaup Íslands og Fjölskylduhlaup Ármanns og grænmetisbænda

Það verður nóg um að vera fyrir hlaupfúsa fætur í Laugardalnum á laugardaginn! Frjálsíþróttadeild Ármanns hefur daginn með Fjölskylduhlaupi Ármanns og garðyrkjubænda. Mæting í Fjölskylduhlaupið er kl. 9.45 við Þvottalaugarnar í Laugardal. Hlaupaleiðin er um 1,5 kílómeter. Að loknu hlaupi verða veitingar í boði Sölufélags garðyrkjumanna. Það kostar ekkert að taka þátt í hlaupinu.

 

Kl. 11 hefst svo Víðavangshlaup Íslands á sama stað. Þar er keppt í öllum aldursflokkum beggja kynja. Jafnframt er keppt um stigabikar í hverjum aldursflokki fyrir sig. Nánari upplýsingar um Víðavangshlaup Íslands má finna hér, tímaseðil má sjá hér. Hlaupaleiðina má sjá hér, í lengri hlaupum dagsins bætist við 500 metra hringur sjá hér.

Páskamót Ármanns

Laugardaginn 12. apríl s.l. stóð Frjálsíþróttadeild Ármanns í fyrsta sinn fyrir Páskamóti Ármanns.

Mótið hófst kl. 9.00 á þrautabraut 8. ára og yngri og 9.-10 ára. Gaman var að sjá hvað krakkarnir lögðu sig vel fram. Sérstaklega var vel tekið á því í þeim þrautum þar sem börnin kepptu við foreldra sína. Að loknum þrautabrautunum fengu allir þátttakendur verðlaunapening.

Kl. 11 hófst svo fimmtarþraut fyrir 11-14 ára flokka drengja og stúlkna. Í fimmtarþrautinni töldu allar greinar samkvæmd unglingastigatöflu. Greinarnar sem krakkarnir tóku þátt í voru 60. metra hlaup, þrístökk án atrennu, kúluvarp, langstökk og 600 metra hlaup. Svipmyndir frá keppni í fjölþrautinni má sjá hér og úrslitin í mótaforriti má sjá hér.

Vonandi er Páskamót Ármanns komið til að vera, frjálsíþróttadeildin þakkar Securitas stuðninginn við mótið.

Reykjavíkurmót 11-14 ára

Reykjavíkurmót 11-14 ára fer fram í dag og á morgun í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Keppt er í 60. metra hlaupi, hástökki, langstökki, kúluvarpi og 600/800 metra hlaupum, 4×200 metra boðhlaupi auk þess sem 13 ára og eldri geta keppt í grindahlaupi. Frjálsíþróttafélögin í Reykjavík standa sameiginlega að framkvæmd mótsins. Tímaseðil má nálgast hér.

 

Ármenningar verða fjölmennir á mótinu en yfir 30 krakkar hafa skráð sig til leiks.

Fínt upphaf hjá Ásdísi, fjórða í Leiria, Portúgal

Ásdís Hjálmsdóttir hóf keppnistímabil sitt í dag. Eins og undanfarin ár hóf Ásdís keppnisárið á því að etja kappi við margar af bestu spjótkösturum álfunnar á Vetrarkastmóti Evrópu í Leiria, Portúgal. Þar náði hún fjórða sæti með 59,10m löngu kasti. Sigurvegari varð Þjóðverjinn Linda Stahl, bronsverðlaunahafi frá síðustu Ólympíuleikum, með 61,20m kasti. Bæði Linda og Ásdísi voru nokkuð frá sínu besta í dag. Linda á 66,81m og Ásdís 62,77m. Enda eru að kastarar oft nokkuð frá sínu besta á Vetrarkastmótinu í upphafi keppnisárs.

Þetta upphaf í dag er það besta hjá Ásdísi frá 2010. Heildar úrslit úr keppninni má sjá hér.

Aðalfundi lokið, tölur grænar nýtt fólk í stjórn

Frjálsíþróttadeild Ármanns hélt aðalfund sinn nú í kvöld. Að baki er annasamt og árangursríkt ár í starfi deildarinnar. Eftir margra ára uppbyggingarstarf var sérstaklega gleðilegt að sjá útkomu ársreikinga. Í fyrsta sinn standa nú æfingagjöld undir þjálfarakostnaði. Ágætis afgangur varð af rekstri deildarinnar.

Á fundinum gengu úr stjórn Atli Örn Guðmundsson og Oddný Jónína Hinriksdóttir eftir tveggja ára setu. Í þeirra stað komu þau Friðbjörn Hólm Ólafsson og Malgorzata Sambor Zyrek. Áfram í stjórn sitja Freyr Ólafsson, Gunnlaugur Júlíusson, Sigrún Broddadóttir, Inga Björk Guðmundsdóttir og Reynir Björgvinsson

Útiæfing yngri flokka

Síðastliðinn fimmtudag var Frjálsíþróttahöllin lokuð fram eftir degi vegna viðburðar. Tækifærið var notað og æfinga hjá yngri flokkum Ármanns voru haldnar utandyra. Veðurguðirnir voru ekkert sérstaklega hliðhollir en krakkarnir höfðu gaman af! Með fréttinni fylgir mynd af krökkunum í 5.-7. bekkjar hópnum sem nýttu svo tækifærið og æfðu spjótkasttækni með snjóboltum!

armannfrjalsar á Instagram

Aðventumót Ármanns