Ármannshlaupið 2014

Armannshlaupid2014

Miðvikudagskvöldið 9. júlí kemur í ljós hverjir eru bestu götuhlaupararnir….
 
…því þá fer Ármannshlaupið fram, með góðum stuðningi Eimskips, sem er jafnframt er meistaramót Íslands í 10 km götuhlaupi. Þetta þýðir þó ekki að minni spámenn eða byrjendur þurfi að halda sig til hlés, því hlaupaleiðin er með þeim léttari og fékk hlaupið afar góða umsögn á hlaup.is í uppgjöri síðasta árs. Allar upplýsingar má finna hér á síðunum fyrir neðan og nú er ekki eftir neinu að bíða heldur bara að skrá sig, það tekur enga stund og er mun ódýrara en að gera það á mótsdegi!

Mótanefndin

Hlaupadagur í Laugardal

Frjálsíþróttadeild Ármanns stóð fyrir tveimur hlaupaviðburðum laugardaginn 10. maí s.l. Dagskráin hófst með Fjölskylduhlaupi Ármanns og garðyrkjubænda. Áður en hlaupið var ræst spreyttu krakkarnir sig í boðhlaupi með gúrku sem kefli! Hlaupin var góðlega kílómetra leið um nágrenni þvottalauganna í Laugardal. Töluverður fjöldi hlaupara á ýmsum aldri spreytti sig á brautinni og naut veðurblíðunnar í dalnum. Svipmyndir af hlaupinu og stemningunni má sjá hér.

 

Klukkan 11 var svo fyrsta hlaup í Víðavangshlaupi Íslands ræst. Keppt var í fjölmörgum flokkum beggja kynja. Af úrslitum Ármenninga má nefna að í flokki 12 ára og yngri pilta sigraði Ólíver Dór Örvarsson. Jafnframt sigruðu Ármanns piltar stigakeppni félaga auk Ólívers skipuðu þeir Björn Þór Gunnlaugsson, Páll Rúnar Sigurðsson og Flóki Týr Klöruson sveitina. Guðmundur Karl Úlfarsson varð í 3. sæti 16-17 ára pilta og Þór Daníel Hólm varð í öðru sæti í flokki 18-19 ára pilta. Ívar Trausti Jósafatsson sigraði í flokki 40 ára og eldri karla og Stefán Guðjónsson varð í 3. sæti í sama flokki. Þeir tveir ásamt Marvin Ívarssyni sigruðu sveitakeppni í flokknum. Í flokki 35 ára og eldri kvenna sigraði Gunnur Róbertsdóttir. Heildarúrslit úr hlaupinu má finna hér. Svipmyndir frá keppni í Víðavangshlaupi Íslands má sjá hér.

 

Frjálsíþróttadeild Ármanns vill nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum lögðu sitt af mörkum fyrir aðstoðina. Sölufélagi Garðyrkjumanna fyrir veittan stuðning við að gera viðburðinn jafn glæsilegan og raun bar vitni. SS fyrir pylsurnar og Myllunni fyrir pylsubrauðin. Jafnframt viljum við þakka öllum hlaupurum og öðrum gestum fyrir komuna.

Innanfélagsmót Ármanns

Innanfélagsmót Ármanns fer fram á morgun 9.maí kl 18:00 í Laugardalshöllinni. Keppt verður í 60m hlaupi karla, kúluvarpi karla og stangarstökki kvenna. Nú fer lokaundirbúningur að hefjast fyrir átökin í sumar en aðeins er rúm vika þar til fyrsta mót í mótaröð FRÍ hefjist. Stuðningsmenn Ármanns eru hvattir til að leggja leið sína í höllina og sjá hvernig Ármenningar koma undan vetri.

Víðavangshlaup Íslands og Fjölskylduhlaup Ármanns og grænmetisbænda

Það verður nóg um að vera fyrir hlaupfúsa fætur í Laugardalnum á laugardaginn! Frjálsíþróttadeild Ármanns hefur daginn með Fjölskylduhlaupi Ármanns og garðyrkjubænda. Mæting í Fjölskylduhlaupið er kl. 9.45 við Þvottalaugarnar í Laugardal. Hlaupaleiðin er um 1,5 kílómeter. Að loknu hlaupi verða veitingar í boði Sölufélags garðyrkjumanna. Það kostar ekkert að taka þátt í hlaupinu.

 

Kl. 11 hefst svo Víðavangshlaup Íslands á sama stað. Þar er keppt í öllum aldursflokkum beggja kynja. Jafnframt er keppt um stigabikar í hverjum aldursflokki fyrir sig. Nánari upplýsingar um Víðavangshlaup Íslands má finna hér, tímaseðil má sjá hér. Hlaupaleiðina má sjá hér, í lengri hlaupum dagsins bætist við 500 metra hringur sjá hér.

Páskamót Ármanns

Laugardaginn 12. apríl s.l. stóð Frjálsíþróttadeild Ármanns í fyrsta sinn fyrir Páskamóti Ármanns.

Mótið hófst kl. 9.00 á þrautabraut 8. ára og yngri og 9.-10 ára. Gaman var að sjá hvað krakkarnir lögðu sig vel fram. Sérstaklega var vel tekið á því í þeim þrautum þar sem börnin kepptu við foreldra sína. Að loknum þrautabrautunum fengu allir þátttakendur verðlaunapening.

Kl. 11 hófst svo fimmtarþraut fyrir 11-14 ára flokka drengja og stúlkna. Í fimmtarþrautinni töldu allar greinar samkvæmd unglingastigatöflu. Greinarnar sem krakkarnir tóku þátt í voru 60. metra hlaup, þrístökk án atrennu, kúluvarp, langstökk og 600 metra hlaup. Svipmyndir frá keppni í fjölþrautinni má sjá hér og úrslitin í mótaforriti má sjá hér.

Vonandi er Páskamót Ármanns komið til að vera, frjálsíþróttadeildin þakkar Securitas stuðninginn við mótið.

Hreinn Heiðar með bætingu og Íslandsmeistaratitil (myndband)

 

Í dag fór fram seinni dagur Meistaramóts Íslands í frjálsíþróttum. Árangur Ármenninga var alls ekki síðri en á fyrri keppnisdegi. Hæst ber að nefna Íslandsmeistaratitil Hreins Heiðars Jóhannssonar.

Hreinn stökk hæst keppenda þegar hann vippaði sér yfir ránna í 197cm hæð yfir gólffleti en það gerði hann í fyrstu tilraun. Næst reyndi hann við 2 metra en það gekk ekki upp í þetta skiptið en það verður gaman að sjá hvað hann gerir á Bikarkeppni FRÍ eftir tvær vikur. Hreinn hefur aldeilis byrjað vel í Ármannsbúningnum en þetta var hans annað mót eftir að hann gekk til liðs við félagið, á fyrra mótinu varð hann Íslandsmeistari ungkarla 20-22 ára. 

Fleiri gerðu vel en Björn Margeirsson hreppti til að mynda silfur í 800m hlaupi en hann hljóp á 1:56,96 mín. Viktor Orri Pétursson hljóp einnig glæsilegt 800m hlaup og rauf þar í fyrsta skipti 2 mínútna múrinn með tímanum 1:59,22 mín.

 

Árangur dagsins var eftirfarandi:

 

Andri Snær Ólafsson Lukes

Langstökk – 6,10m

 

Bjarni Malmquist Jónsson

Langstökk – 6,39m 

 

Björn Margeirsson

800m hlaup – 1:56,96 mín

 

Ernir Jónsson

800m hlaup – 2:02,82 mín

 

Viktor Orri Pétursson

800m hlaup – 1:59,22 mín (persónuleg bæting úr 2:00,32 mín)

 

Þór Daníel Hólm Friðbjörnsson

2:10,51 mín

 

Bætingarstökk Hreins Heiðars:

 

María Rún semur við háskólalið Minnesota

María Rún Gunnlaugsdóttir frjálsíþróttakona úr Ármanni flutti um miðjan janúar til borgarinnar Minneapolis í Minnesotaríki í Bandaríkjunum. Hún mun næstu misserin stunda nám við University of Minnesota sem er með stærri og betri skólum Bandaríkjanna. Við skólann stunda nám um 40.000 nemendur. Þjálfarar frjálsíþróttaliðs skólans settu sig í samband við Maríu á HM 19 ára og yngri sem haldið var í Barcelona sumarið 2012. Þeir hafa fylgst með henni síðan þá og meðal annars komið tvisvar hingað til lands í þeim tilgangi að sjá hana í keppni (MÍ innanhúss sl. vetur), fylgjast með æfingum og ræða við hana og fjölskyldu hennar.

María Rún fær fullan skólastyrk við skólann svo og allt annað sem hún þarf á að halda varðandi íþróttir, ferðakostnað og það annað sem tilheyrir æfingum og keppni meðan hún dvelur við skólann. Hún nýtur þannig fyrsta flokks aðstöðu til æfinga og keppni á vegum skólans. Megin grein hennar fyrir hönd skólans verður sjöþraut. Margir af fremstu frjálsíþróttamönnum landsins hafa æft og keppt með bandarískum háskólaliðum en María Rún er fyrsti Íslendingurinn sem gengur til liðs við frjálsíþróttalið University of Minnesota.

María Rún í Minnesota

Því miður á María enn við meiðsli að stríða sem hún varð fyrir á EM 20-22 ára í júlí sl. Lítið hafði gengið að vinna bug á þeim fram til þessa. Hún var strax sett í myndatöku og nákvæma skoðun við komuna til Minneapolis og er nú komin í ákveðna meðferð sem bundnar eru vonir við að skili árangri. María mun koma heim með vorinu og verður vonandi þá búin að vinna bug á meiðslunum svo hún geti keppt hér heima í sumar.

60m hlaup á Stórmóti ÍR (myndband)

Eins og áður hefur komið fram fór Stórmót ÍR fram um síðustu helgi. Þar átti Ármann þrjá keppendur í 60m hlaupi í karlaflokki.

Hér á myndbandasíðu meistaraflokks má sjá myndband af riðlunum þremur sem Ármenningarnir Haraldur, Andri Snær og Kristófer hlupu í. Gaman er að horfa á ræsingu hlaupanna sem er sýnd mjög hægt.

Andri Snær Ólafsson hljóp sitt fyrsta 60m hlaup frá árinu 2010 og jafnaði sinn besta árangur, 7,31 sek.
Haraldur Einarsson og Kristófer hlupu vel en bætti sig þó ekki. Hraðast allra hljóp Norðlendingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson en hann fór 60 metrana á 7,01 sekúndu.


Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum

Föstudaginn 20.desember fer fram hið árlega Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum. Mótið var fyrst haldið árið 2009 og er trúlega eina stökkmótið sem haldið er í atrennulausum stökkum á höfuðborgarsvæðinu. Mótið heitir í höfuðið á Hafsteini Þorvaldssyni en hann er mikill félagsmálamaður og var til að mynda formaður Ungmennafélags Íslands í mörg ár. Atrennulausu stökkin, sem hafa þurft að víkja fyrir hefðbundum stökkgreinum síðustu ár, voru á árum áður stunduð af miklum móð. Þá voru íþróttir oftar en ekki æfðar í litlum félagsheimilum þar sem ekki var hægt að hlaupa atrennu eða stökkva í sandgryfju og því lá beinast við að stökkva langstökk, þrístökk og hástökk án atrennu. Greinarnar eru afskaplega skemmtilegar að því leyti að fólk getur komið úr öllum mögulegum íþróttagreinum og staðið sig mjög vel. Þar er það ekki endilega frjálsíþróttafólkið sem stendur best að vígi heldur hafa kraftlyftingamenn til dæmis staðið sig mjög vel. Íslandsmetið í langstökki án atrennu í karlaflokki er í eigu Flósa Jónssonar kraftlyftingamanns. Það mældist 3,45 m. Frjálsíþróttadeild Ármanns skorar á íþróttafólk úr öllum greinum að mæta á svæðið og reyna sig á móti mörgum af bestu frjalsíþróttamönnum og -konum landsins. Að sama skapi væri gaman að fá gamlar kempur til að mæta á svæðið og keppa í flokki 50 ára og eldri. Nánar um mótið: Keppt verður í 6 flokkum: -Flokki 16 ára og yngri sveinar -Flokki 16 ára og yngri meyjar -Karlaflokki -Kvennaflokki -Karlaflokki 50+ -Kvennaflokki 50+ Keppnisgreinar: -Langstökk án atrennu -Þrístökk án atrennu -Hástökk án atrennu Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki og fyrir flest heildarstig í karla og kvennaflokki. Allir velkomnir og hvattir til að mæta. Keppnisgjald er: -1000kr fyrir 16 ára og yngri -1500kr fyrir 17 ára og eldri Fylgist með fram að móti á facebook síðunni “Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum.Skráning: hafsteinsmot@hotmail.com – Takið fram fullt nafn og kennitölu Ábyrgðarmaður: Haraldur Einarsson Yfirdómari: Bjarni Már Ólafsson

armannfrjalsar á Instagram

This error message is only visible to WordPress admins

Error: No connected account.

Please go to the Instagram Feed settings page to connect an account.

Aðventumót Ármanns