Höfundur safns

Bronsleikar ÍR um helgina

Fyrsti viðburður haustannarinnar er framundan en Bronsleikar ÍR fara fram í fimmta sinn á laugardaginn. Á mótinu er annarsvegar í boði þrautabraut fyrir 8. ára og yngri og hins vegar fyrir 9.-10 ára. Allir fá verkefni við hæfi á mótinu, aðal málið er að taka þátt og hafa gaman af, í lok móts fá allir verðlaunapening að launum fyrir þátttökuna. Eins og undanfarin ár taka Ármenningar þátt og stefnir í góða þátttöku. Þjálfarar Ármanns láta foreldra í sínum flokkum vita um hvernig fyrirkomulag skráningar er hjá okkur. Góða skemmtun! Nánari upplýsingar

Foreldrafundir yngri flokka

Á fimmtudaginn (11. september) verða haldnir foreldrafundir hjá yngri flokkum Ármanns. Fundirnir verða haldnir í sal nr. 3 í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Á fundunum kynna þjálfarar fyrirkomulag æfinga, starfið á haustönninni og helstu viðburði. Á meðan á foreldrafundunum stendur verða iðkendur virkir inni í sal undir leiðsögn þjálfara. Tímasetningar eru sem hér segir:

1.-2. bekkur kl. 16.15
3.-4. bekkur kl. 17.00

5.-6. bekkur kl. 17.30
7.-10. bekkur kl. 18.00

Reykjavíkurmót 11 ára og eldri

Þessa vikuna fer fram á Laugardalsvelli Reykjavíkurmót 11-14 ára og 15 ára og eldri. Í kvöld hófst keppni í þónokkrum greinum og hópur Ármenninga tók þátt. Ármenningar stóðu sig með sóma, mótvindur var í spretthlaupunum og miklar sveiflur í vindstyrk í langstökkinu. Heildarúrslit dagsins má finna hér og tímaseðil fyrir keppni næstu daga. Á morgun miðvikudag verður keppni með svipuðu sniði, á fimmtudaginn eru eingöngu 15 ára og eldri að keppa.Á myndinni sem fylgir má sjá Ármannskeppendur í 11-12 ára flokki sem allir komust á pall í dag.

Opið hús hjá Frjálsíþróttadeild Ármanns

Æfingar hefjast hjá Frjálsíþróttadeild Ármanns 1. september n.k. Hægt er að sjá yfirlit yfir tímasetningar æfinga og hvaða daga þær eru hér.

Líkt og undanfarin ár hefjum við tímabilið með opnu húsi í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Þangað eru allir velkomnir til að kynna sér aðstæður og hitta á þjálfara deildarinnar. Að sjálfsögðu verður hægt að spreyta sig í frjálsíþróttagreinum. Um að gera að mæta og bjóða með vinum, ættingjum og bekkjarfélögum!  Opna húsið stendur frá kl. 11-13 laugardaginn 30. ágúst.

Ármenningar á Gautaborgarleikum

Öflugur hópur unglinga úr frjálsíþróttadeild Ármanns eru komnir til Gautaborgar þar sem þau munu keppa um helgina á Gautaborgarleikunum. Unglingarnir hafa undirbúið ferðina í allan vetur með markvissum æfingum og ýmiss konar fjáröflunum. Þjálfarar hópsins eru þeir Halldór Kristjánsson og Stefán Guðjónsson og jafnframt eru nokkrir foreldrar með í för og aðstoða við fararstjórn.

 

Hægt er að fylgjast með keppninni og sjá úrslit um leið og þau berast hér. Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn á síðustu æfingu fyrir brottför með Stefáni þjálfara.

Vorferð 5.-7. bekkjar

Síðastliðna helgi fóru krakkarnir í 5.-7. bekkjar hópnum hjá Ármanni í vorferð. Að þessu sinni var förinni heitið til Þorlákshafnar. Þar undu krakkarnir sér vel við leiki og æfingar. Gist var í Grunnskólanum í Þorlákshöfn, nokkrir foreldrar voru með í ferðinni og aðstoðuðu þjálfara. Á laugardaginn var haldið mót á frjálsíþróttavellinum í samvinnu við frjálsíþróttadeild KR. Að loknu móti sem haldið var í hressilegu slagveðri var góðri ferð lokið með sundferð.

Hlaupadagur í Laugardal

Frjálsíþróttadeild Ármanns stóð fyrir tveimur hlaupaviðburðum laugardaginn 10. maí s.l. Dagskráin hófst með Fjölskylduhlaupi Ármanns og garðyrkjubænda. Áður en hlaupið var ræst spreyttu krakkarnir sig í boðhlaupi með gúrku sem kefli! Hlaupin var góðlega kílómetra leið um nágrenni þvottalauganna í Laugardal. Töluverður fjöldi hlaupara á ýmsum aldri spreytti sig á brautinni og naut veðurblíðunnar í dalnum. Svipmyndir af hlaupinu og stemningunni má sjá hér.

 

Klukkan 11 var svo fyrsta hlaup í Víðavangshlaupi Íslands ræst. Keppt var í fjölmörgum flokkum beggja kynja. Af úrslitum Ármenninga má nefna að í flokki 12 ára og yngri pilta sigraði Ólíver Dór Örvarsson. Jafnframt sigruðu Ármanns piltar stigakeppni félaga auk Ólívers skipuðu þeir Björn Þór Gunnlaugsson, Páll Rúnar Sigurðsson og Flóki Týr Klöruson sveitina. Guðmundur Karl Úlfarsson varð í 3. sæti 16-17 ára pilta og Þór Daníel Hólm varð í öðru sæti í flokki 18-19 ára pilta. Ívar Trausti Jósafatsson sigraði í flokki 40 ára og eldri karla og Stefán Guðjónsson varð í 3. sæti í sama flokki. Þeir tveir ásamt Marvin Ívarssyni sigruðu sveitakeppni í flokknum. Í flokki 35 ára og eldri kvenna sigraði Gunnur Róbertsdóttir. Heildarúrslit úr hlaupinu má finna hér. Svipmyndir frá keppni í Víðavangshlaupi Íslands má sjá hér.

 

Frjálsíþróttadeild Ármanns vill nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum lögðu sitt af mörkum fyrir aðstoðina. Sölufélagi Garðyrkjumanna fyrir veittan stuðning við að gera viðburðinn jafn glæsilegan og raun bar vitni. SS fyrir pylsurnar og Myllunni fyrir pylsubrauðin. Jafnframt viljum við þakka öllum hlaupurum og öðrum gestum fyrir komuna.

armannfrjalsar á Instagram

This error message is only visible to WordPress admins

Error: No connected account.

Please go to the Instagram Feed settings page to connect an account.

Aðventumót Ármanns