Viktor Orri valinn úr hópi efnilegra Ármenninga

Glímufélagið Ármann verðlaunaði í gær unga og efnilega íþróttamenn sérstaklega. Viðurkenningar fengu þeir sem útnefndir höfðu verið efnilegastir í sinni deild. Erfitt verk hafði dómnefnd með höndum, að velja á milli ólíkra einstaklinga úr ólíkum íþróttum.

Efnilegustu íþróttamenn hverrar deildar eða þeirra fulltrúar. Þór Daníel Hólm, þriðji frá vinstri, tók við verðlaunum f.h. Viktors Orra æfingafélaga síns.

Sá sem varð fyrir valinu heitir Viktor Orri Pétursson, upprennandi millivegalengdarhlaupari úr frjálsíþróttadeild. Viktor Orri er Seltirningur, fæddur 1997. Hann hefur æft handknattleik og knattspyrnu með Gróttu, en einbeitir sér nú að millivegalengdarhlaupum. Eins og kom fram hér á síðunni náði Viktor Orri nú undir lok árs lágmarki fyrir Úrvalshóp FRÍ. Viktor Orri æfir undir stjórn Dr. Erlings Jóhannssonar Íslandsmethafa í 800m hlaupi. Framfarir hans á önninni undir stjórn Erlings hafa verið miklar.

Árangur Viktors Orra í keppni árið 2013

 • 1. sæti á MÍ 15-22ja ára í 800m og 1500m hlaupum
 • 1. sæti í 10km í Ármannshlaupinu.
 • Reykjavíkurmeistari í sínum aldursflokki á besta tíma ársins.
 • 4. sæti í 10.000,- metra hlaupi á braut í flokki fullorðinna.
 • Reykjavíkurmaraþon, 2. sæti í sínum aldursflokki.
 • Reykjavíkurmeistari í 400m hlaupi á 55,62s
 • Sigurvegari á Silfurleikum ÍR í 800m hlaupi.
 • Reykjavíkurmeistari í 1500m hlaupi í sínum aldursflokki.
 • Sigurvegari í Hjartadagshlaupinu 5km.

Staða Viktors Orra á afrekaskrá FRÍ, í sínum aldursflokki

 • 800m hlaup, 1. sæti í sínum aldursflokki.
 • 1500m hlaup, 1. sæti í sínum aldursflokki.
 • 3000m hlaup, 1. sæti í sínum aldursflokki.

Helgi Sveinsson er íþróttamaður Ármanns 2013

Í dag var tilkynnt um val á íþróttamanni Ármanns fyrir árið 2013. Sá sem hlýtur sæmdartitilinn þetta árið er frjálsíþróttamaðurinn Helgi Sveinsson.

Kempan er Reykvíkingur, fæddur 1979. Helgi fékk krabbamein í sköflungsbein hægri fótar 1998 og var fóturinn tekinn af fyrir ofan hné.

Frjálsíþróttaiðkun Helga hófst vorið 2011 með keppni á Ólympíumóti í Ríó 2016 sem helsta markmið. Framfarir urðu mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Eftir eitt ár í þjálfun var Helgi með A-lágmark í þremur greinum, 100m hlaupi, langstökki og spjótkasti.

Það er í spjótkasti sem Helgi hefur blómstrað. Hann náði fimmta sæti á Ólympíumóti fatlaðr 2012. Á liðnu ári náði Helgi síðan þeim magnaða árangri að ná heimsmeistaratitli í spjótkasti í sínum flokki á HM í frjálsum fatlaðra í Lyon. Sigurkast Helga mældis 50,98 metrar.

Helgi Sveinsson íþróttamaður Ármanns 2013

Helgi Sveinsson íþróttamaður Ármanns 2013 ásamt Kára Jónssyni þjálfara sínum. Mynd:Gunnlaugur Júl.

Ármann er fyrirmyndarfélag

Mikill heiður hlotnaðist Glímufélaginu Ármanni í dag. Félagið og allar starfandi deildir þess, hlutu gæðaviðurkenninguna, Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Það var Sigríður Jónsdóttir, formaður þróunar og fræðslusviðs ÍSÍ, sem afhenti deildum félagsins og aðalstjórn viðurkenningu þessu til staðfestingar.

Þetta gamla og rótgróna Reykjavíkurfélag er vel þekkt. Á vitorði færri er að rekstur og skipulag félagsins er og hefur verið undanfarin ár til fyrirmyndar. Félagið er stórt og fjölbreytt fjölgreinafélag, með flestar virkar íþróttir fjölgreinafélaga borgarinnar. Það er eitt af stærstu félögum lands og borgar ef miðað er við iðkendafjölda.

Vel fór á að félagið skyldi hljóta þessa viðurkenningu í dag, 15. desember, á 125 ára afmæli félagsins.

Sigríður Jónsdóttir afhendir Snorra Þorvaldssyni formanni Glímufélagsins Ármanns staðfestingu fyrir því að félagið sé eitt Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

Frjálsíþróttadeild Ármanns er Fyrirmyndardeild

Freyr Ólafsson formaður tók við viðurkenningu fyrir hönd frjálsíþróttadeildarinnar.

Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum

Föstudaginn 20.desember fer fram hið árlega Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum. Mótið var fyrst haldið árið 2009 og er trúlega eina stökkmótið sem haldið er í atrennulausum stökkum á höfuðborgarsvæðinu. Mótið heitir í höfuðið á Hafsteini Þorvaldssyni en hann er mikill félagsmálamaður og var til að mynda formaður Ungmennafélags Íslands í mörg ár. Atrennulausu stökkin, sem hafa þurft að víkja fyrir hefðbundum stökkgreinum síðustu ár, voru á árum áður stunduð af miklum móð. Þá voru íþróttir oftar en ekki æfðar í litlum félagsheimilum þar sem ekki var hægt að hlaupa atrennu eða stökkva í sandgryfju og því lá beinast við að stökkva langstökk, þrístökk og hástökk án atrennu. Greinarnar eru afskaplega skemmtilegar að því leyti að fólk getur komið úr öllum mögulegum íþróttagreinum og staðið sig mjög vel. Þar er það ekki endilega frjálsíþróttafólkið sem stendur best að vígi heldur hafa kraftlyftingamenn til dæmis staðið sig mjög vel. Íslandsmetið í langstökki án atrennu í karlaflokki er í eigu Flósa Jónssonar kraftlyftingamanns. Það mældist 3,45 m. Frjálsíþróttadeild Ármanns skorar á íþróttafólk úr öllum greinum að mæta á svæðið og reyna sig á móti mörgum af bestu frjalsíþróttamönnum og -konum landsins. Að sama skapi væri gaman að fá gamlar kempur til að mæta á svæðið og keppa í flokki 50 ára og eldri. Nánar um mótið: Keppt verður í 6 flokkum: -Flokki 16 ára og yngri sveinar -Flokki 16 ára og yngri meyjar -Karlaflokki -Kvennaflokki -Karlaflokki 50+ -Kvennaflokki 50+ Keppnisgreinar: -Langstökk án atrennu -Þrístökk án atrennu -Hástökk án atrennu Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki og fyrir flest heildarstig í karla og kvennaflokki. Allir velkomnir og hvattir til að mæta. Keppnisgjald er: -1000kr fyrir 16 ára og yngri -1500kr fyrir 17 ára og eldri Fylgist með fram að móti á facebook síðunni “Hafsteinsmót í atrennulausum stökkum.Skráning: hafsteinsmot@hotmail.com – Takið fram fullt nafn og kennitölu Ábyrgðarmaður: Haraldur Einarsson Yfirdómari: Bjarni Már Ólafsson

Styrmir Dan tvíbætti Íslandsmet á Aðventumóti Ármanns

Vel heppnuðu Aðventumóti Ármanns lauk skömmu eftir hádegi í dag. Þátttaka var mjög góð en 186 keppendur voru skráðir til leiks. Margt frábært íþróttafólk tók þátt á mótinu, aðallega í yngri flokkum en þó var sæmileg þátttaka í fullorðinsflokkum.

Mörg met voru í hættu og þá sérstaklega aldursflokkamet. Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir bætti Íslandsmet í sínum fötlunarflokki (F20) í kúluvarpi kvenna með kasti upp á 9,20m en hún er í íþróttafélaginu Suðra á Suðurlandi.

Hinn bráðefnilegi Styrmir Dan Steinunnarson sýndi frábæra takta í hástökki þegar hann tvíbætti Íslandsmet í flokki 14 ára pilta innanhúss. Fyrst bætti hann metið, sem var 1,85m með því að stökkva 1,86m í þriðju tilraun sinni við hæðina. Þá var ráin hækkuð í 1,90m og gerði pilturinn sér lítið fyrir og stökk yfir þá hæð í fyrstu tilraun. Myndband af stökkunum má sjá hér að neðan. Ármann þakkar keppendum, starfsmönnum og gestum mótsins kærlega fyrir góðan dag.

Aðventumót Ármanns – mikil þátttaka

Það sem átti í upphafi að vera lítið aðventumót fyrir nokkra Ármannskrakka er orðið að spennandi viðburði með ágætri þátttöku. Alls eru 152 keppendur skráðir frá 12 félögum. Þar af eru margir af efnilegustu unglingum landsins sem án vafa reyna að bæta aldursflokkamet á mótinu. Vegna þessa mikla áhuga og skráningar höfum við þurft að breyta tímaseðli mótsins. Sjá að neðan uppfærðan tímaseðil, hér á pdf formi, hér á Google Drive. Aðventumót Ármanns 2013 - Tímaseðill

Innanfélagsmót 7. des = Aðventumót Ármanns

Við Ármenningar stefnum á að halda innanfélagsmót 7. des næstkomandi, nefnt Aðventumót Ármanns. Mótið hefst í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal klukkan 10:00. Örvar Ólafsson hefur undirbúið metnaðarfullan tímaseðil sem má sjá á vefnum hér.

Hugsanlegt er að tímaseðillinn taki einhverjum breytingum ef skráning á mótið verður mikil.

Vitað er til þess að einhverjir góðir gestir ætla að fá að grípa tækifærið og vera með í mótinu, auk Ármenninga.

Mótið er kærkomin æfing fyrir Ármenninga í mótahaldi sem munu standa að framkvæmd Meistaramóts Íslands 15-22ja ára í upphafi janúar.


Ármenningar opna frjálsar.is

Frjálsíþróttadeild Ármanns opnar hér með síðuna frjalsar.is. Hér er ætlunin að birta fréttir, myndir, myndbönd og fleira af frjálsum. Ármenningar verða hér í aðalhlutverki þó fleiri komi fyrir.

Mögulegt er að gerast áskrifandi að færslum síðunnar með t.d. RSS streymi, hér.

Allar ábendingar vel þegnar á armann@frjalsar.is

Ný heimsíða frjálsíþróttardeildarinnar

Velkomin á nýja heimasíðu frjálsíþróttadeildar Ármanns. Síðan er enn í vinnslu og við leyfum ykkur ágætu lesendur að fylgjast með framganginum. Hér munu birtast reglulegar fréttir og myndir af starfi frjálsíþróttardeildarinnar. Eins og sjá má tilheyrir breiður hópur frjálsíþróttadeildinni. Af því erum við stolt. Hjá okkur geta jafnt 6 ára og 60 ára eflt sig og reynt á sig. Við vonum svo sannarlega að þessi síða eigi eftir að koma að góðum notum og  að stuðningsmenn Ármanns og fleiri geti enn fremur fylgst með okkar fólki og okkar starfi.

armannfrjalsar á Instagram

This error message is only visible to WordPress admins

Error: No connected account.

Please go to the Instagram Feed settings page to connect an account.

Aðventumót Ármanns